þriðjudagur, desember 28, 2004

Happiness is a warm gun

Var að horfa á Bourne Supremacy. Gat ekki að því gert að þegar ég heyrði lögguna kalla á þýsku "Póliddsææ", "Póliddsææ", þá datt mér í hug gömlu þættirnir með kriminalkommidsar Stefan Derrikk og hans trausta aðstoðarhundi Harrí Klein. Maður horfði á þá leysa hvert morðmálið á fætur öðru á föstudagskvöldum.

Að auki get ég sagt að atriðið í Bourne með rússnesku stelpunni er jafnvel Hollívúdd til skammar. Sveiattann.

Ég missti víst af ágætis djammi í gær. Ekki það að heilsan hafi verið til þess að djamma. En maður hefði líklega látið sig hafa það...

Ég mætti og tók þátt í Molduxa-mótinu í kveld. Að mörgu leyti ágætt. Í fyrsta skipti sem ég spilaði í lávarðaflokknum. Ég gruna þó nokkra sem spiluðu í þeim flokki að vera undir aldri. Hælætið var auðvitað þegar góðvinur minn Ingvar mætti á svæðið. Greinilega stund síðan hann hafði snert bolta. Og Molduxar höfðu nett gaman af að dissa hann. Ekki það að ég hafi verið með stórleikina. Síður en svo. Greinilegt var að sumir sem við spiluðum við hafa greinilega ekkert þroskast þó komnir séu á fimmtugsaldurinn. Góð tilhugsun.

Lag dagsins er You keep on moving með Deep Purple.


sunnudagur, desember 26, 2004

Jingle bells...

Jæja....

Maður er sumsé búinn að vera í blíðunni á Króknum síðan á Þorláksmessu. Það var vitlaust veður hér á aðfangadag og jólanótt. Svosem ekki vandamálið fyrir mig, þar sem ég hélt mig innan dyra. Óþolandi pest sem ég hef náð mér í í kuldanum hér heima.

Ég lenti seint á Keflavíkurflugvelli síðasta þriðjudag. Bjössi sýndi djörfung og dug og sótti mig. Við urðum auðvitað aðeins að ræða málin yfir einum köldum, sem þýddi að við vorum ekki langferskustu drengirnir í dalnum á miðvikudagsmorgni. Ég fékk far með Bjössa í bæinn frá Kef og tókst að eiga þar einhvern mesta letidag lífs míns. Eftir að við Bjössi komum við hjá Jökli frænda mínum á rakarastofnuna og gefið honum eintak af jóladisknum sem Bjössi setti saman, fór ég í hádegismat með Sjonna. Eftir mat þvældist ég með Sigurjóni, og mátti vart milli sjá hvor var í frí eður ei. Þó kom að því að drengurinn þurfti að skipuleggja eitthvað í vinnunni, og þá stefni ég aftur til Jolla. Þar fékk ég að vita að einn kúnninn hafði næstum látið lífið úr hlátri í stólnum vegna 'tónlistarinnar'. Gott mál. Hékk svo hjá Jolla þar til ég fór í mat á Gallerí Fisk með Bjössa, Rúnu, Lindu og Kidda. Þó að Kiddi hafi auðvitað verið á hlaupum. Enda kaupmaður í jólatraffík. Gott að sjá liðið aftur, og maturinn að auki súper. Ég fór svo til Sjonna og Beggu að loknum mat, en þau skutu yfir mig skjólshúsi, og ég fékk far með þeim daginn eftir. Að sjálfsögðu þurftum við eilítið að ræða málin yfir nokkrum köldum. Gott mál.

Eruði að grínast með kuldann á Þorláksmessu? -25 í Miðfirði. -19 á Sauðárkróki. Og nú er komin hláka. Four seasons in one day sagði maðurinn um árið.

Annars er maður temmilegur. Reynir að sötra koníakið til að koma pestinni úr sér.

Mér tókst í hugsunarleysi að gleyma jólakortunum, sem ég ætlaði að skrifa, heima í Danaveldi. Ég sendi því engin jólakort. Ég vil því senda öllum bestu jólakveðjur hér. Ég vona að þið hafið það sem allra best yfir hátíðarnar.

föstudagur, desember 24, 2004

Gleðileg jól!

þriðjudagur, desember 21, 2004

Maðurinn, hann er eins og hann er, en ekki eins og hann ætti að vera

Jæja.....

Prófin búin. Ekki verður sagt að ég hafi dúxað. Frekar en vanalega. Er þó 20 einingum nær masternum eftir prófin í dag og gær. Bíð nú bara einkunnar úr síðasta prófi, en það ætti að vera í fínu lagi.

Ég veit ekki hvort að ég segi þetta að lokinni hverri próftörn, en allavega þá var þessi súr í meira lagi. Eitt skriflegt próf, sem gekk allt í lagi, og tvö munnleg, sem gengu síður en svo vel. En þau höfðust, þannig að það þýðir ekkert að væla alltof mikið.

Ég hugsa að það hafi verið sjón að sjá mig í morgun. Búinn að sofa c.a. 5 tíma síðustu tvær nætur, og stressið að fara með mig. Biggtæm. Og ekki til að bæta það að áætlunin öll komin úr skorðum þegar komið var að mér. Meiriháttar að bíða extra hálftíma og hugsa um allar spurningarnar sem maður vissi næstum svörin við. Á móti verð ég þó að segja, að eins og ávallt eru bæði kennari og prófdómari þvílíkt næs í þessum munnlegu prófum.

Það stefnir því allt í að ég byrji á lokaverkefni í febrúar eða mars. Svo lengi sem ég finn mér eitthvað að skrifa um.

Ég held að ég noti tækifærið og þakki Begga sérstaklega vel fyrir að sjá mér fyrir lesefni á leiðinni heim. Eitt stykki mastersverkefni í stærðfræði.

Jæja....Er að spá í að koma mér á Kastrup og fá mér að éta. Ætla ekki að vera seinn í flugið í þetta skiptið.

Bjór fyrir þann sem kemur með úr hvaða lagi fyrirsögnin er.

sunnudagur, desember 19, 2004

What's the sound of one hand clapping?

Mig vantar meira hillupláss. Fjandi pirrandi að þurfa að færa meter af bókum til að komast að bókinni sem mann vantar.

Ég er svo gott sem búinn með glærugerðina endalausu. Magnað þegar maður að leggja lokahönd á undirbúning fyrir munnlega próf hvað manni tekst stundum að stressa sjálfann sig. Reyndar held ég að ég geti sagt að líklega hef ég sjaldan lært meira yfir önnina, þannig að auðvitað ætti engin ástæða að vera að stressa sig. En það er kannski skiljanlegt þegar janúarkúrs og væntanlegt lokaverkefni eru að veði. Magnað hvað það getur virkað hvetjandi að þurfa að fara að byrja á lokaverkefni. Aftur. Þar er góða mótsögnin.

Ef einhver er að spá í að skella sér í rafmagnsverkfræði hér í DTU, þá er ég meira en til í að miðla af reynslu minni í hvaða röð maður á ekki að taka fögin. Það var sannkallað Kodak-móment (ég rukka fyrir auglýsinguna seinna, Óli...) þegar var að spjalla við einn kennarinn minn um hugsanlegt lokaverkefni. Þetta átti sér stað í áfanga sem er undanfari allra faga sem ég hef tekið síðustu tvö árin. Góða skipulagningin, húrra.

Það virðist vera sem maður sé partur af deyjandi stétt. Danir hættir að nenna að fara í tæknifræði og stefnir ekki í að hætt verði að kenna tæknifræði heima. Ó vell. Maður verður víst að harka það af sér. Auðvitað mjög fyndið að tala um að maður sé af þessi eða hinni stéttinni og hafa aldrei unnið við fagið.

Í tilefni athugasemdar frá Óskari fyrr, þá er eilítið fyndið að hugsa til þess að fagið sem hann kommentaði á (Remote sensing), fær mann til að spá í hvort maður sé í jarðfræði eða landafræði eða þvíumlíku. Praktísk rafsegulfræði. Það held ég nú.

Í tölvunni í kvöld hljómuðu m.a. Sam Brown, Survivor, Bítlarnir, Smithereens, Whitesnake, Tom Robinson band, Tim Finn, Timbuk 3, Kinks og Van Morrison.

laugardagur, desember 18, 2004

He's a very clean man

Hmmm....Það gekk ekki eftir að klára kynninguna fyrir kvöldmat. Allavega ekki kvöldmat á föstudegi. Það hafðist samt fyrir morgunmat á laugardegi. Þetta verður löng helgi.

Ekki að ég sé að kvarta......(náðuði þessum?)

Óskar, mér þætti mjög gaman að heyra í útvarpsmiðlinum "Já, ég er með mjög sterkann scattering parameter hér.....Kannastu við einhvern með sirkjúlar pólarisjón?"...."Nei, ekki það? En línulega?"

Úfff, ef húmorinn fer miklu neðar má Hilmar fara að vara sig.

Lag morgunsins er Love of my Live. Minnir mig á það er ég dobblaði ömmu með mér á Highlander í Regnboganum útaf því að Queen var með músíkina í myndinni. Gúdd tæms.

föstudagur, desember 17, 2004

Til lukku!

Árni Hermann bróðir minn útskrifaðist í dag frá FB.

Góður.

I could be wrong, but I'm not

Ekki mikið að segja þessa dagana. Nema ef ég tæki mig til og segði ótrúlega spennandi sögur úr Remote Sensing og Antennas. Ég held þó að þær færu ekki langt á best-seller listunum. Það besta sem ég get sagt um þessi væntanlegu próf, er að þau eru stutt.

Það mætti halda að þýski flugkappinn sé orðinn spenntur fyrir jólamóti Molduxa í körfubolta. Ekki að ég lái honum það. Ég hef bara vissar áhyggjur að sumir ætli að endurlifa yngri flokkana þegar boltinn var aldrei gefinn.

Hvernig er það, á ekki að spila Trivial um jólin?

Það lítur út fyrir að ég hafi mig ekki í jóla-tívoli, frekar en áður. Ég er samt ákveðinn í að skrifa á jólakortin sem ég keypti fyrir þremur árum og eru enn í skúffunni hjá mér. Tveir af hlutunum sem ég ætlaði að afreka í desember í ár.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Out of nine lives, I spent seven

Ég ætlaði hér að setja inn fyrsta lestur af útvarpssögunni "Lángbesti dreingurinn í dalnum", en þar sem ég var að fletta í gegnum póstinn minn að leita að lestrinum fann ég póst frá Arinbjerni sem ég sé mig tilknúinn að setja hér inn. Hér er meðal annars vel kveðið. Bjössi sendi þennan póst eftir að ég kláraði B.Sc verkefnið:

"Hr. Diplómingjenínör Björgvin Reynisson dreingur frá Túni

Ég bið um að stoppa prentunina á nýju Símaskránni svo að titillinn komist með! Aungvi skal afskrfia góðann dreing fyrr enn hann hefur spýtt í báða lófana og rifið sjálfann sig upp á eina hárinu sem gleymist alltaf að raka framanáenninu! Ég gratúlera góðan sigur, merkisáfanga og nýjan titil sem hæfir þér í alla staði vel og vandlega! Megir þú eiga vísa marga kalda í ókominni framtíð og mega margir méðirnir verða drukknir þér til heiðurs og í þína skál! Hér sýngur saungvari okkar allra, landsins sómi og vesturheimsfari GeislaKarl hinn blindi þjér til heiðurs hið fornkveðna erindi sem gleymdist í Hávamálum en birtist hér "Dreingurinn góði" sem hljómar aunhvurnveginn á þennan veg:

Dreingurinn góði í Dalnum mætur
óx upp út'á túni sem lítið písl
lék sér við heygarðinn með beittann kvísl
orti vísur við rúmgafl um dimmar nætur
dreymdi um frægð og víf
lá oft seint á kvöldum
svalaði sér á köldum
hugsaði um stúdentslíf
hélt að heimann með húfu í hendi
með knerri til hafnar kaups og kóng
í brjéfum heim í Dalinn sendi
ríkisdal íaskarspón
í erfiðinnar stúdíu
freistaðist af stúdínu
að barmagóðri freyju gaut
morgnar lángir kvöldin blaut
þar sem áður stúdent grænn og votur
við dagrenningu niðurlotur
umskiptingur nú um Lýngbæ fer
situr oft á björtum kvöldum
svalar sér á einum köldum
díplómum hann einkar sér
stendur sig með baravör
framtíðarinnar ingjenör"

Ég sé það að ég hef líklega hálfsárs efni á síðuna í in-boxinu mínu. Bara frá Bjössa. Það verður því enn bið á útvarpssögunni. Kannski heilsárs, ef ég treina það.

Virgil Caine is my name

Á næsta ári gæti ég sagt sem svo: "Hvað eiga Arnbjörn, Björn Friðrik, Geirlaugur og Árni Hermann Reynisson sameiginlegt?"

Svarið mun vera að þeir munu allir hafa kennt í fjölbrautarskóla. Ekki leiðinlegur félagskapur þar.

Mikið var gaman að fá póst frá Icelandair áðan. Þar sem þeir þökkuðu mér góð viðskipti á árinu og buðu mér far heim og tilbaka fyrir 5.000 punkta og 700 kall danskar. Ef þeir hefðu nú bara drullast til að senda þetta fyrir, ja, svona einum og hálfum mánuði. Þýðir þetta samt ekki að maður verður að nýta sér þetta og skreppa heim í febrúar? Skoðum málið.

mánudagur, desember 13, 2004

You're Crazy

Búinn að vera með súrt lag á heilanum í dag. Andrés Önd, með Ladda. Meiriháttar stemmning að reyna að læra með þetta fjandans lag í hausnum. Urrr.....

sunnudagur, desember 12, 2004

Hole in the River

Mikil snilld. Bruno vinur minn ætlaði að senda mér nokkrar skrár í tölvupósti núna áðan. Eitthvað gekk það erfiðlega, þannig að ég sendi honum nokkrar línur, svo að hann gæti sent skrárnar til baka á það póstfang. Auðvitað voru línurnar vel valdar og einkar smekklegar. Bruno ákvað að svara af krafti, en klikkaði aðeins á tækninni, og í staðinn fyrir að bölva mér í sand og ösku, þá bíður heill póstur af dissi af verstu gerð í in-boxinu hjá yfirmanni hans. Ef ég væri ekki svona góður hefði ég örugglega hlegið.

Annars er bara setið við próflestur. Meiriháttar vika sem blasir við. Remote Sensing mánudaginn 20. og Antennas þann 21. Bæði próf munnleg, eða kynningar. Þ.e. maður mætir, dregur efni og byrjar að tala um það með það sama. Það góða við þennan háttinn, er að maður er búinn eftir hálftíma. Ekki þetta 4 tíma skrif-maraþon. Ókosturinn er hins vegar að ég er alltaf mun stressaðari fyrir þessi próf en þau skriflegu.

Lag dagsins er Butterfly með Lenny Kravitz. Öldungis ágætt lag.

laugardagur, desember 11, 2004

Get the funk out

Kíkti í bíó í dag. Sá "stórmyndina" Alexander. Was not impressed. Góðu punktarnir svo fáir að ég ætla ekki einu sinni að telja þá hér. Tvær stjörnur, og það eingöngu fyrir Angelinu Jolie og Rosario Dawson.

Ætlunin var að kíkja í bæinn í gær. Ég sofnaði hinsvegar útfrá bók sem ég var að lesa, og nennti svo ekki af stað þegar ég rankaði við mér. Kannski eins gott, þar sem ég frétti að fólk hafi verið hálf dasað eftir prófin. Vaknaði í staðinn snemma í morgun og lærði fram að hádegi, en þá kíkti ég í bíó.

Ætli að maður kíki ekki í Methods of Moments fyrir háttinn. Ætti að svæfa mann í hvelli.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Mea Culpa

Djöfull klikkaði ég svakalega í dag. Eftir að hafa minnst á það við Begga að við myndum kannski athuga með að borða eitthvað seinnipartinn í dag, þá steingleymdi ég svona að hafa samband við hann meðan ég, Steinunn, Erna og Fríða pöntuðum og átum á okkur gat. Ótrúlega leim hjá mér og bið ég Dr.Bergþór stórlega afsökunar á þessu. Veit ekki alveg hvað olli þessu hugsanaleysi.

Það fór sem mig grunaði að myndi gerast. Nú eru menn farnir að dissa mig fyrir að skrifa ekki nógu reglulega hér. Ég vissi að það voru mistök að segja nokkrum manni frá þessari síðu.

Ég tók rafsegulfræðipróf í morgun. Og ef ég fæ ekki góða einkunn, þá verð ég pínu súr. Eða Mega-súr. Jafnvel Tera-súr. (....ok, ég veit, þessi var slakur.) Ætlaði svo að byrja með það sama að undirbúa fyrir næsta próf, en forðaði mér heim eftir kvöldmat, varla búinn að gera neitt. Ákvað að stressa stúlkurnar sem voru að læra ekki frekar á samviskuleysi mínu.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Half of what I say is meaningless

...En hinn helmingurinn tóm gullkorn. Eða eitthvað í þeim dúr.

Skil á skýrslu í dag. Og kynning á efni hennar eftir c.a. tvo tíma. Fjandi verður gott að koma þessu af sér. Þeir sem hafa áhuga geta auðvitað fengið skýrsluna senda til að lesa yfir jólin.

Aldrei á ég eftir að venjast því að sjá fólk að reykja á hjóli. Í morgun hjólaði framhjá mér virðulegur maður með rettuna í annarri, og bauð mér góðan daginn. Allt mjög skondið.

Ég ætla að endurnýja kynnin við gítarinn minn eftir hádegi, áður en ég byrja á lestri fyrir rafsegulfræðipróf.

sunnudagur, desember 05, 2004

What the ****?

Vaknaði klukkan 7 í morgun. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að sofna aftur gekk ekkert og ég skundaði á fætur og uppí skóla.

Himnarnir munu hrynja síðar í dag.

All I've got's this sunny afternoon

Skellti mér á julefrokost hjá körfuboltafélaginu. Það var ágætt, vömbin kýld hressilega með klassískum jólafrokostkræsingum. Ég forðaði mér samt um tíuleytið, þar sem þá var þegar búið að opna u.þ.b. 7 snapsaflöskur, annar bjórkúturinn var kominn á dæluna og 17 lítrar af jólaglöggi runnir niður. Okei, kannski ekki alveg 17 lítrar, en svona tveir pottar í það minnsta.

Fór og hitti Bjössa og Rúnu og við kíktum á kaffihús. Alltaf gaman að hitta þau hér í Köben. Svona smá deisja vú.

Arsenal vann, og ég held að ég sé loksins farinn að skilja það sem ég er að skrifa skýrslu um. Það gengur því líklega glatt á morgun.

föstudagur, desember 03, 2004

Jealous Guy

Ansi vann ég mér inn mörg rokkstig í bókabúðinni í Lyngby Storcenter í dag.

Eða þannig.

Ég gekk inní búðina, nýbúinn að greiða leigu og símareikning, sem bæ ðe vei var svona sæmilegur (önnur saga). Ég hugsaði að kannski væri ráð að kaupa eina kilju, þar sem það fer endalaust í taugarnar á mér þessi skipti sem ég er ekki að skemmta mér einhversstaðar, að eiga ekki bók að lesa. Það eru ákveðin takmörk fyrir lestri skólabóka, hversu skemmtilegar þær eru.

Ég var mjög nærri að kaupa einhverja Dan Brown bók, sem mig minnir að bróðir minn hafi reyndar hælt. Ég hugsaði hins vegar með mér, að ef ég kaupi bókina, þá er skólabókalesturinn farinn í desember. Ókei, hey, þarna eru spil.....

Þannig að ég gekk yfir að rekkanum með spilunum. Öll Trivjal og Risk og hvað veit ég. Nema, að ég sá þar spil sem ég hef spilað einu sinni, og ég minnir að sé súper spil. Ég greip milli tveggja handa "Venner for Livet". Hmmmm.....Kostar þetta....Já.

Ákvað að kíkja á bakhliðina. Ja......Alltíeinu mistókst eitthvað. Ég ætlaði að svipta með báðum höndum spilinu, þannig að ég sæi bakhliðina. Tja, það tókst svona vel að spilið lenti tveimur metrum frá mér. Ég leit auðvitað í kringum mig. Fyrsta sem ég sá, var kona bak við mig í hláturskasti. Nokkuð sanngjarnt, fannst mér, sérstaklega þar sem hún fékk ekki kassann í hausinn. Þannig að ég hló líka, til að reyna að halda kúlinu. Eins mikið og maður getur haldið því eftir svona eppisód. Man.....Er samt að spá í kaupa þetta spil. Spurning hvort famílían spili dönsk spil.



fimmtudagur, desember 02, 2004

Aces High

Butt to see hamstring specialist. Ég get nú ekki að því gert að mér finnst þessi fyrirsögn ágæt.

Ég sá Starship Troopers aftur um daginn. Alveg merkilegt hvað sú mynd er underrated. Reyndar er leikurinn á köflum alveg skelfilegur, en mjög skemmtilegur húmor í myndinni.

Búin að vera pest og leiðindi síðustu daga. Hið versta mál. Má lítt vera að svona rugli núna. Síðasti kennsludagur næsta þriðjudag, og einnig skil og kynnig á skýrslu í Remote sensing. Einhvern veginn grunar mig að það verði smá stuð frammá þriðjudag. Veit ekki einu sinni hversu mikinn tíma ég hef til að hitta Bjössa og Rúnu sem koma í bæinn á morgun, held ég.

Eftir viku er svo fyrsta prófið, rafsegulfræði, 4 tíma skriflegt próf. Strax farinn að hlakka til.

Lag dagsins: Cold as Stone með norsku gæðagrúppunni A-Ha.