mánudagur, maí 31, 2004

Morgunstund gefur gull......

Það kann vel að vera. Hins vegar upplifi ég þessar morgunstundir varla nema ég hafi vakað alla nóttina. Það er kannski ekkert verra. Nú hef ég alltént verið uppi síðan um miðjan dag í gær að dunda mér við að setja upp glærur fyrir munnlegt próf. Reyndar náði ég líka að horfa á Indiana-Detroit í beinni. Fínn leikur.

Maður er sumsé hálfnaður í prófum. Tók tvö í síðustu viku. Frekar dapur í Integrated Analog Ciruits, en nokkuð góður í Microwave Techniques, held ég. Næst á dagskránni eru sumsé 20-25 mínútna munnlegt próf á þriðjudag og 4 tíma skriflegt próf á fimmtudag.

Eftir próf á fimmtudag er stefnan tekin á að kíkja heim og ganga frá því sem ég ætla að taka með heim, og svo er stefnan sett á síðustu gleðina í Köben áður en maður fer heim. Ég var reyndar að komast að því að ég flýg heim um hálf ellefu leytið á föstudagmorgni, þannig að maður verður líklega að passa uppá að vera ekki að koma alltof seint heim úr bænum. Held að ég þurfi bara að hugsa um flugið til Orlando í fyrra til það gangi eftir.

Ég verð sumsé mættur á klakann þann 4.júní og mættur skömmu síðar norður á Sauðárkrók að vinna á Hótel Áningu í sumar. Ekki ónýtt það.

Jæja.....Er að spá í að leggja mig í 3-4 tíma. Það held ég nú.

fimmtudagur, maí 20, 2004

Everyday I write the Book...

Forðaði mér í bíó í dag ásamt Begga, Fríðu og Kidda. Sá Troy. Ágætis mynd. Og Akkilles hlýtur að teljast með meiriháttar fýlupúkum, toppmaður þar á ferð.

Nóg að gera framundan. Integrated circuits á mánudag, microwave tecniques á fimmtudag efir viku, radar- and radiometry þann 1.júní og wireless communication þann 3.júní. Allt skriflegt nema radarkúrsinn, en þar þarf að sveifla fram c.a. 40 glærum fyrir próf. Aldeilis ágætt.

Nema hvað, að eftir síðasta próf verður svo haldið heim í dalinn, þar sem unnið verður af hörku í allt sumar. Eða megnið af sumri. Maður hefði þó gjarnan vilja njóta aðeins sumarblíðunnar hér úti. Og auðvitað að halda félögunum að verki hér. Mig grunar að þegar ég verð ekki til staðar að halda fólki að skólabókunum, þá verði sumum lítið úr verki. En, það verður að hafa það...

Jæja, ekki dugir að láta bækurnar bíða lengur.

mánudagur, maí 17, 2004

Einn, tveir.....

Þar sem prófin eru að byrja á morgun, og lítið verður að gera næstu vikurnar, þá var auðvitað heillaráð að byrja að blogga. Það held ég nú. Reyndar veðja ég á að eftir 2-3 vikur verði ég kominn með leið á þessu, en við látum reyna á það.

Á morgun er sumsé próf í PDE. Það verður í annað skiptið sem ég hef ánægjuna að fara í þetta próf. Vonum að það verði í síðasta skiptið. Ég skal þó fúslega játa, að undirbúningurinn hefði getað verið betri. Kallinn búinn að liggja í pest í dag. Og í ofanálag hefur verið nóg að gera í öðrum fögum í vetur til að halda manni frá reglulegum lestri í faginu. Ekki þýðir þó að væla, heldur massa þetta og taka stefnuna á 13. Einmitt....

Maður skellti sér í Jónshús síðasta laugardagskveld. Þar var mættur fríður hópur að horfa á Júróvisjón. Ég verð nú að segja að lögin voru all-döpur. Allavega einbeittum við okkur frekar að bjórnum og að vera skemmtileg. Þurfti nú ekki mikið til. Ég segi það enn og aftur: Geirmund í Júróvisjón. Getur bara ekki klikkað. Af hverju neita menn að sjá þetta?