Aloha!
Þá er maður mættur í menninguna aftur. Ekki verður sagt annað en að ferðin til Brno hafi lukkast með afbrigðum vel. Reyndar á ég eftir að skila verkefninu, en við segjum að það gangi vel fyrir sig.
Ég flaug til Köben seinnipart föstudagins 9. Ég get skotið því hér að, að ég kann illa við þá þróun hjá Icelandair að vera seinir sí og æ. Nú, svo var maður mættur á Kastrup aftur klukkan 8 næsta morgun og flogið var til Prag og þaðan tekinn bílaleigubíll til Brno. Í Brno var tekið á móti okkur með kostum og kynjum og mikil veisla langt frammá kvöld. Það breytti þó ekki því að fyrirlestrar hófust stundvíslega klukkan 8:30 á sunnudagsmorgni. Fyrirlestrar voru svo sleitulaust til 18:30 síðdegis. Það er nú ekki laust við að heilinn hafi verið orðinn velsteiktur þá.
Þannig gekk þetta 3 dagana, en þriðjudagurinn var svokallaður kúlturdagur. Þá fórum við að sjá einhvern kastala, helli og bjórbrugghús og var það allt mjög gaman. Misgaman þó.
Herlegheitunum var svo slitið á fimmtudagsmorgun, þar sem allir nemendahópar þurftu að kynna sín verkefni. Það gekk stórslysalaust hjá öllum, og eftir það var öllum gefinn tékkneskur bjór. (Ansi kom það á óvart, þeir HATA bjórinn þarna....)
Mætti svo sömu leið til baka til Íslands á föstudag þar sem Bjössi tók á móti mér og hann og Rúna buðu mér í mat. Ekki leiðinlegt. Magnað alveg að við borðuðum úti, í Kef. Ég er varla búinn ná mér enn úr undrun.
Auðvitað fylgdi svo ágætisölvun, þar sem ég fór á þvílíkum kostum að ekki verður meira um það sagt hér.
Á laugardegi var hins vegar svo komið að mig vantaði far heim. Endaði það á að ég og Bjössi fengum að fljóta með drengjunum í Spútnik. Þar spilar Kiddi Ká á bassa þannig að það var fín ferð. Allavega miðað við að ég var þunnur, sat á kassa hálfa leiðina og að Kiddi spilar á fimm strengja bassa.
Ég býst svo við gleði um næstu helgi þar sem Árni bróðir og Kolla koma norður til að halda uppá tvítugsafmælið hans, og að Bjössi og Rúna og Kiddi og Unnur verða á svæðinu. Veisla....Eins gott að ég er í fríi um helgina. Hins vegar verður því ekkert úr rafting þessa helgina.
Jamm....Reyni að skrifa eitthvað af "viti", við tækifæri.