fimmtudagur, júní 24, 2004

Eat your heart out, Hérastubbur!

Jæja....

Það er auðvitað búið að ganga svona líka vel að uppfæra hér. Maður reyndar búinn að vera temmilega bissí við að vaka á næturnar og sofa á daginn. Nú veit ég að sumir hugsa að það sé nú bara eins og vanalega. Munurinn er þó að nú er kallinn að vinna á nóttunni í stað þess að eyða tímanum í tóma vitleysu.

Ég verð að segja að vinnutíminn er með versta móti, og alveg lygilegt að ég hafi látið hafa mig út í þetta aftur. Það tókst líklega þar sem nógu langt er orðið um liðið síðan ég vann við þetta síðast.

Einn helsti kosturinn við að vera vakandi á nóttunni á Sauðárkróki, er að veðrið er líklega best á þeim tíma. Miðnætursólin og logn, en eins og þeir vita sem lagt hafa leið sína hingað, þá er logn eitthvað sem er bannað innan bæjarmarka. Eða svo mætti halda...

Ég gekk loks frá kaupum á flugmiðanum til Köben, en þangað fer ég sumsé þann 9.júlíber. Fórna mér kannski í 1-2 bjóra með drengjunum þar, en svo er haldið til Tékkland þann 10. Ég er að vona að ég hafi skilið prófessorinn rétt, en ef svo er, þá er farið frá Köben til Brno líka borgað af sponsorum. Þetta er farið að líta svo vel út á pappírnum, að ferðin hlýtur bara að enda sem eitt stórt klúður. Nó vei að hlutirnir geti gengið svona smurt.

Reyndar fékk ég dagskrá námskeiðsins í hendur um daginn, og það er ljóst að þetta verður vinnuferð dauðans. Á þremur dögum eru 15 fyrirlestrar og 10 Phd kynningar. Svo verður einn kúlturdagur þar sem kastalar og bjórverksmiðjur verða skoðaðar. Spurning hvort að það er sama stöffið og við skoðuðum í Tékkóslóvakíuferðinni okkar '91. Mér er ómögulegt að muna hvar í landinu þær kynningar fóru fram í það skiptið. Gæti þó hafa verið á þessum slóðum. Nóg um það.

Urrrr.....Djöfull er ég að fara yfir um á þessu gítarleysi hér. Ég tók með mér minn kæra rafmagngítar og skildi hann eftir í Reykjavík til að láta gera við hann lítillega. Hins vegar skilst mér að gítarsmiðurinn sé meiri svefnpurka en ég, og því sé gítarsins ekki að vænta úr viðgerð fyrr en eftir dúk og disk. Það endar líklega með því að ég tek kassagítarinn með frá Köben í bakaleiðinni frá Tékklandi.

Það verður þá þokkaleg blanda heima, ég með gítarinn, Mæja systir á fiðlunni og pabbi á bassanum. Auðvitað hvert í sínu horni. Gott rokk.

Við Hilmar erum farnir að huga að rafting-ferð í Skagafjörðinn. Erum að spá í að setja á rafting helgina 23-25 júli. Planið er þá að rafta á laugardeginum og svo að djamma um kveldið. Það verður fróðlegt að sjá hverjir þora.

Well, það er kominn tími til að vekja nokkra túrista.



sunnudagur, júní 06, 2004

The boy is back in town

Kominn á klakann. Eftir vægast sagt óskemmtilega ferð heim. Héðan í frá hef ég tekið það til gagngerrar endurskoðunnar að djamma frammundir morgun á ferðadegi. Hefði sannarlega betur látið það ógert í þetta skiptið. Ég var svo seinn niður á Kastrup, að steraspretturinn hjá Ben Johnson um árið var ekkert miðað við sprettinn á mér að ná vélinni. Uss....

Í ofanálag var mér gert að greiða stórar upphæðir vegna yfirvigtar. Það er sumsé ekki að rokka að taka bæði með sér rafmagnsgítarinn og hálft bókasafnið sitt. Þetta er kannski eitthvað sem ég hefði hugsað útí ef ég hefði ekki pakkað þegar ég kom heim af djamminu. Uss, enn og aftur.

Mér var boðið í þessa líka afbragðs matarveislu í gær hjá Sjonna og Beggu. Að vanda var étið rækilega yfir sig. Við Sjonni reyndum svo að jafna okkur á landsleiknum með því að fara í golf, en það var erfitt að segja að spilamennskan hafi verið eitthvað til að monta sig yfir.

Best að koma því að hér, þó að ég sé auðvitað búinn að segja það öllum sem ég þekki, að kallinn skellir sér til Tékklands í næsta mánuði. Jíbbííí. Vika til Tékkó, ekkert að því. Rifja upp gamla tíma. Ég býst fastlega við að margt hafi breyst síðan við vorum þarna, 1991 að mig minnir.

Ætli að ég reyni ekki að koma einhverri reglu á þessa pistla þegar ég kem heim í dalinn. Eins og maðurinn sagði:
"Þetta er spurning um metnað....."

þriðjudagur, júní 01, 2004

Best imitation of myself

Hmmpffff.....

Var í munnlegu prófi í Radar-og Radiometer Systems í dag. Óhætt að segja að það gekk ekki eins og ég hefði óskað. Dem. Það er samt alveg magnað hvað ég verð stundum tómur í þessum munnlegu prófum. Spurning hvort að það sé málið, stress, eða það að maður kunni ekki efnið. Kaupi ekki það síðasttalda í þetta skiptið, þar sem efnið þekkti ég vel. Eitthvað til að hugsa um.

Heyrði í Arnbirni stórfélaga mínum í kveld. Ég er búinn að vera að vara vini mína á klakanum við því að ég er að koma heim. Datt það í hug að Bjössi er auðvitað ábyrgur fyrir titli síðunnar.

Þannig var sumsé að mér leiddist í tíma fyrir nokkrum árum, aldrei þessu vant, og þegar Bjössi og Rúna voru hér úti. Þá fannst mér vel tilfundið að fara heim og reyna að fá Bjössa til að kveðast á við mig. Það var auðvitað eins og ákalla andskotann í öðru veldi. Úr urðu margar vísur, verulega misgóðar. En það sem uppúr stóð var útvarpssagan sem við skrifuðum. Sagan um lángbesta dreinginn í dalnum. Það segir örugglega eitthvað sorglega mikið um húmorinn, að ég fæ gjörsamlega tárin í augun (af hlátri) þegar ég les fjandann aftur. En, á móti vita þeir sem þekkja mig að mér vöknar fyrst um augun þegar aulahúmor er annars vegar.

Jæja....Nóg af röfli, ég þarf að fara hitta fólk.