miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Happy?

Urrrr.....Windows. Maður búninn að skrifa langa og bráðfyndna færslu, og þá ákveður hugbúnaður skrattans að taka yfir og rí-starta.

Allavega, þá var ég að velta fyrir mér, hvað er málið með orðið "hispurslaus"? Orð sem mér er gjörsamlega fyrirmunað að koma rétt útúr mér eftir einn bjór. Alveg magnað. Minnir á einn náskyldan mér og orðið "uppgötva". Heppilegt að orðið hispurslaus og bjór eiga enga sérstaka samleið.

Ég hef undanfarið verið aðeins að reyna að finna eitthvað sniðugt að gera sem lokaverkefni. Á tímabili var ég að verða kominn svo í hringi að ég var að spá í að auglýsa hér eftir tillögum. Hvernig væri það? Einhverjar hugmyndir að lokaverkefni í örbylgjuverkfræði? Annars er komin hugmynd, þannig að ef ekkert annað mun sniðugra kemur upp, þá ætla ég að kýla á það. Það sem heillar töluvert við það verkefni, er að það er séns á að það gæti tengst stórfyrirtæki á sínu sviði. Það heillar einmitt töluvert að fá lokaverkefni sem er ekki bara hrein teoría. Við sjáum hvað setur.

Ég minni svo á að í nótt eru kosningar í vesturveldi, og að í kveld byrjar einnig nýtt NBA tímabil. Þannig að við verðum að vona að þessi dagur verði í minnum hafður sem dagurinn sem valdaskipti urðu, og fyrsti dagur meistaratímabils Golden State Warriors. Óli, Flugleiðir eru að fara að fljúga beint. Nú fer að koma tími á ferð á NBA leik?