Start with me
Ætli það hafi verið mistök að espa upp heimasíðu-vitleysuna í Bjössa? Það er spurning.
Í gær var Erna með afmælisveislu. Við Beggi og Hilmar fórum í bæinn seinniparts, þar sem okkur hafði verið falið að versla gjöf. Við unnum það starf auðvitað með sóma. Keyptum meðal annars eitthvert mest óþolandi kort sem ég hef heyrt. Allavega, Fríða mætti svo í bæinn, og við fórum og fengum okkur borgara á Chili. Alltaf gott.
Eftir mat var gengið heim til Ernu. Þó með reglulegum stoppum á pöbbunum á Vesterbrogade. Höfðum það svo af að komast í partíð á réttum tíma. Eða svo til. Ég get ekki sagt annað en, að þetta var með skemmtilegri partíum sem ég hef mætt í lengi. Haugur af fólki. Ótrúlega vel veitt. Og góð stemming. Og ég edrú í þokkabót. Alveg ótrúlegt. Held að ég hafi sett nýtt met í vatnsdrykkju. Ég var svo ókrýndur konungur eldhússpartísins. Held að ég hafi verið á tjattinu í eldhúsinu í góða 2 tíma. Vel af sér vikið. Allavega var ég í flesta staði sáttur við gleðina, og það var svo til að toppa allt að gestgjafinn misti röddina. Svona eiga partí að vera...
Í dag spratt maður svo á fætur eldsnemma. Nei, ókei....Meira svona eftir hádegi. Og spilaði einn alleiðinlegasta körfuboltaleik sem ég hef spilað. Við flengdum einhver grey 113-60. Ekki mikið meira um það að segja, nema að auðvitað var ég í því að gefa boltann eins og venjulega, þrátt fyrir súrar aðdróttanir Ingvars um annað. Gaf mér tíma í að setja 11. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þegar við spilum við lið sem geta eitthvað. Það er eitthvað sem segir mér að okkar leikur verði eilítið stirðari.
Ég er kominn með nýjan nágranna. Hún er hávær. Það er því ljóst að ég mun ekki verða með samviskubit yfir því að spila hér á gítar, ukulele, munnhörpu, bongótrommu, eða hvað annað sem mér dettur í hug að prófa. Reyndar ætla ég mér að eyða kvöldinu í að taka aðeins í gítarinn. Einhverja góða blöndu. En eitt lag sem verður spilað til höfuðs nágrannanum er Crowded House klassíkerinn Whispers and Moans. Ekki spurning.
Dr. Horný hefur ekki látið heyra í sér.
<< Home