laugardagur, október 09, 2004

Only talking sense

Ágætisdagur í gær. Við byrjuðum daginn á að halda fyrirlestur í tíma. Fyrirlesturinn fjallaði um Cloude's decompostion method. Algjört torf, en við vorum nokkuð sáttir við sjálfa okkur. Auðvitað allt sett upp í Latex og Prosper. Rosa flott. Að loknum hádegismat var haldið í bæinn þar sem maður slæptist frammeftir degi. Aðeins að njóta byrjunar haustfrís. Hitti svo Pétur og Regínu og þvældist með þeim um miðbæinn frammað mat. Þá bauð Bóksalinn mér í mat með Rotary-félögum. Alveg öldungis ágætt. Eftir mat var svo haldið á sýningu hjá Sossu. Býsna skondið að skunda inn með 24 Króksara á listagallerí í Kaupmannahöfn.

Ég verð að segja, að það var ekki alveg efst á óskalistanum að vera vakinn í morgun og beðinn um að koma í íþróttahúsið til að skrifa leikskýrslu. Urrrr í öðru. Stóð mig samt eins og hetja og skrölti á lappir uppúr hádegi og reddaði því. Leiðindaleikur hins vegar, ekki mikið fyrir augað.

Það stefnir allt í það að haustfríið góða fari í lærdóm. Alltof mikið að gera hjá þessum köllum. Annars verður líklega tekið smá skrall í vikunni. Við eigum alltaf eftir að fagna almennilega með Hilmari komu erfingjans. Nú er lag, og fólk virðist hafa töluverðann metnað fyrir að láta þetta ganga upp núna.

Það er gaman að geta þess að Hinir Sömu eru að fara til London næsta föstudag á leik með Arsenal. Það fer hver að verða síðastur að sjá leik á Highbury. Að kalla þetta vinnuferð er samt kannski tú mödds. Ég bið fyrir kveðjur í Gap-sjoppuna, drengir.