þriðjudagur, nóvember 29, 2005

You're twice as cold as Greenland

Ég kíkti niður í bæ á laugardaginn var. Það er töluvert öðruvísi stemming yfir manni fyrir þessi jól en önnur síðustu jól hér úti. Það kemur auðvitað mest til af því að vera ekki í verkefna-og prófstressi. Alveg ágætt að kíkja í bæinn. Nema að mannfjöldinn var þvílíkur að ég hef aldrei séð annað eins. Frá Tívolí, niður Strikið og alveg niður Nyhavn var vart þverfótað fyrir fólki. Ef ég hefði verið að gera eitthvað þarna annað en að hangsa, þá hugsa ég að þetta hefði getað verið pirrandi.

Annars hafði ég það af að horfa á fyrstu 60 mínúturnar af Arsenal-Blackburn. Ágætisleikur og Arsenal leiddi 2-0 þegar ég fór. Mikið var ég búinn að gleyma því hvað Robbie Savage á ekki heima á fótboltavelli. Þvílíkt þvaghænsni.

Ég keypti mér einnig tvær bækur. Önnur var Scar Tissue, sem er ævisaga söngvara Red Hot Chili Peppers. Ég las þá bók á sunnudaginn, og ég verð að segja að ef helmingurinn er ekki lygi, þá er magnað að maðurinn sé á lífi. Þvílíkt líferni. Lýsingar sem nálgast lýsingar á Keith Richards er hann var uppá sitt besta.

Hin bókin sem ég keypti, og er nýbyrjaður á, er A Short History of Nearly Everything. Ég fékk þessa bók fyrst lánaða hjá Óla Arnari einhver jólin, en náði ekki að klára hana. Held að þetta geti verið skemmtileg lesning. Þrátt fyrir að vísindatýpurnar segi að nóg sé af vitleysum og misskilningi í bókinni.

Svo verslaði ég mér nýtt dagatal fyrir árið 2006. Ég er strax farinn að hlakka til að nota það.

Ég fékk þetta fína bréf frá ráðningarskrifstofu heima, þar sem mér var tilkynnt að freastað hefði verið að ráða í starfið sem ég sótti um, og það yrði auglýst aftur. Jæja, já...Það er eins og það er.

Ég er búinn að vera að finna allnokkur spennandi störf í Englandi. Er eitthvað vit í að fara þangað að vinna?

Lag dagsins er Cold as Stone með A-ha, norsku gæðagrúppunni. Sjaldan hefur nokkurt lag átt betur við.